Erlent

Átök í Palestínu grafa undan SÞ

Íranska nefndin hlýðir á Bush Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lét ekki sjá sig í salnum meðan Bandaríkjaforseti flutti ræðu sína.
Íranska nefndin hlýðir á Bush Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, lét ekki sjá sig í salnum meðan Bandaríkjaforseti flutti ræðu sína. MYND/AP

Kofi Annan flutti í gær síðustu opnunar­ræðu sína við upphaf Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York, því næsta haust verður nýr framkvæmdastjóri tekinn við af honum. Annan dró í ræðu sinni upp dökka mynd af ástandi heims­málanna. Hagstjórnin væri ranglát, glundroði væri ríkjandi og almenn fyrirlitning á mannréttindum og lögum. Hann hvatti ríki heims til þess að taka höndum saman og vinna að einingu í alþjóðasamfélaginu.

Hann sagði enn fremur að á meðan Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna væri ófært um að binda enda á átök Ísraels og Palestínumanna myndi virðing fyrir Sameinuðu þjóðunum halda áfram að dvína.

Meðan Annan flutti ræðu sína bárust þau tíðindi frá Taílandi að herinn hefði gert stjórnarbyltingu og steypt Thaksin Shinawatra forsætisráðherra af stóli. Thaksin var staddur í salnum og fékk að skipta við Svartfjallaland á ræðutíma, þannig að hann gat flutt ræðu sína í gærkvöld til þess að komast heim til Taílands degi fyrr en til stóð.

Einna mesta athygli vakti þó ræða George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem beindi meðal annars máli sínu að Írönum og hvatti þá til að hætta kjarnorkuáformum sínum. Hann varði einnig stefnu sína í málefnum Mið-Austurlanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×