Erlent

Kemur ekki til greina að fara

George Bush Segir hryðjuverkamönnum veitt öruggt athvarf til þess að skipuleggja hryðjuverkaárásir gegn Bandaríkjamönnum yfirgefi bandaríski herinn Írak.
George Bush Segir hryðjuverkamönnum veitt öruggt athvarf til þess að skipuleggja hryðjuverkaárásir gegn Bandaríkjamönnum yfirgefi bandaríski herinn Írak.

 George Bush, forseti Bandaríkjanna, sagði í vikulegu útvarpsávarpi sínu í gær að ekki kæmi til greina að kalla bandaríska herliðið heim frá Írak. Með því að hörfa á brott væri hryðjuverkamönnum veitt öruggt athvarf þar sem þeir gætu skipulagt árásir á Bandaríkin. Einnig væri minning þeirra sem látist hafa í stríðinu vanvirt ef herliðið væri kallað til baka, með því væri fórn þeirra höfð að engu.

Hann sagði síðustu vikur hafa verið sérstaklega erfiðar herliði Bandaríkjamanna í Írak sem og lögregluliði heimamanna, en mikilvægt sé að missa ekki sjónar á lokatakmarkinu sem væri sigur. Forsetinn fundaði með helstu sérfræðingum sínum í hernaðarmálum í gær varðandi stöðuna í Írak.

Ofbeldi hélt áfram í Írak í gær. Að minnsta kosti átján létust í sprengjuárás á markað sunnan við Bagdad. Herskáir sjíar gerðu einnig árás á lögreglustöð í nágrenni Bagdad þar sem átta létust. Þrír bandarískir hermenn létu lífið í árás uppreisnarmanna í al-Anbar héraði.

Októbermánuður hefur verið einn sá blóðugasti í Írak síðan innrás Bandaríkjamanna hófst fyrir rúmum þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×