Erlent

Nýnasistar eru enn á ferð í Þýskalandi

Mótmæli nýnasista í Berlín Þeir lýstu stuðningi sínum við rokksöngvarann Michael Regener, sem situr í fangelsi fyrir að hvetja til kynþáttahaturs og ofbeldis.
Mótmæli nýnasista í Berlín Þeir lýstu stuðningi sínum við rokksöngvarann Michael Regener, sem situr í fangelsi fyrir að hvetja til kynþáttahaturs og ofbeldis. MYND/AP

Nærri þúsund nýnasistar efndu til mótmælaaðgerða í Berlín á laugardaginn til þess að lýsa stuðningi sínum við rokksöngvarann Michael Regener, sem situr í fangelsi í þrjú ár fyrir að hvetja til kynþáttahaturs með hljómsveit sinni. Sextán mótmælendanna voru handteknir.

Regener hefur verið í fangelsi í þrjú ár, eða allt frá því að kveðinn var upp dómur í máli gegn hljómsveitinni Landser, sem hann stofnaði á sínum tíma. Hljómsveitin þótti uppvís að því að hvetja til haturs gegn bæði gyðingum og útlendingum í lögum sínum.

Mótmælaaðgerðirnar á laugardaginn voru skipulagðar af stjórnmálaflokknum NPD, sem þykir öfgasinnaður hægriflokkur. Í síðasta mánuði náði flokkurinn manni á landsþingið í Mecklenburg-Vorpommern, einu af sextán sambandslöndum Þýskalands.

Leiðtogar gyðinga jafnt sem fjölmargir stjórnmálamenn í Þýskalandi hafa varað við því að styrkur nýnasista fari vaxandi, einkum í austurhluta landsins.

Sérfróðir menn telja að ástæður þess megi rekja til þess að lýðræðishefðir hafi enn ekki náð að skjóta almennilega rótum í austurhluta landsins, þar sem kommúnistastjórn var við völd í fjóra áratugi. Erfitt efnahagsástand í austurhlutanum leiði einnig til þess að fólk fái útrás fyrir gremju sína með því að sækja í hörkulegan hugmyndaheim nýnasistanna.

Núna um helgina sagði Shimon Stein, sendiherra Ísraels í Þýskalandi, að gyðingum þar í landi þætti óöryggi sitt fara stöðugt vaxandi. Nú þurfi að hafa stranga öryggisgæslu við flest samkunduhús gyðinga í landinu.

Þeir eru ekki færir um að lifa eðlilegu gyðingalífi, sagði Stein í dagblaðinu Neue Osnabrücker og hvatti jafnframt Þjóðverja til þess að leggja meira af mörkum til þess að berjast gegn vaxandi gyðingaandúð.

Í síðustu viku samþykkti þýska stjórnin viðbótarfjárveitingu til margvíslegra verkefna sem eru í gangi víða í Þýskalandi til þess að vinna gegn hægri öfgum. Meðal annars verða ráðgjafar styrktir til þess að ferðast um landið og einnig fá sjálfshjálparhópar fórnarlamba stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×