Erlent

Sendir settur í hnakka dýranna

Rottugangur Danskir vísindamenn hafa hafið viðamikla rannsókn á skólpræsarottum.
Rottugangur Danskir vísindamenn hafa hafið viðamikla rannsókn á skólpræsarottum. MYND/AP

Danskir vísindamenn hafa hafið viðamikla rannsókn á brúnrottum sem lifa í skólpræsum meðal notaðra smokka, matarafganga, saurs og annars úrgangs. Ástæðan er sú að í raun er afar fátt vitað um þessa fjölmennestu tegund spendýra í veröldinni, segir á fréttavef Politiken.

„Það er yfirleitt óskaplega mörgum spurningum ósvarað varðandi skólprottur sem gerir það erfiðara að berjast gegn þeim á sem skilvirkastan hátt,“ sagði Ann-Charlotte Heiberg frá Meindýrarannsóknarstofu Danmerkur.

Til dæmis er lítið vitað um það hvar þær halda sig í skólprörunum og hversu oft þær koma upp úr þeim.

Brúnrottur eru plága um allan heim, aðallega vegna þess að þær eru sjúkdómsberar, en einnig því þær naga göt á skólpræsakerfi borga. Þess vegna reyna borgaryfirvöld víða að eitra fyrir þeim, en vandinn er að sífellt fleiri rottur virðast þróa með sér ónæmi fyrir eitrinu.

Því óttast heilbrigðisyfirvöld að rottufaraldur sé í vændum, nema nýjar aðferðir verði fundnar til að stemma stigu við dýrunum. Vísindamenn í Lyngby, Rødovre og Kaupmannahöfn fanga því þessa dagana villtar rottur og setja sendi í hnakka þeirra, svo hægt sé að fylgjast með hegðun þeirra í jörðu niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×