Menning

Forvitnileg yfirlitssýning

Sigurður var einn afkastamesti portrett málari Íslands um áratugi.
Sigurður var einn afkastamesti portrett málari Íslands um áratugi.

Í Smiðjunni Listhúsi í Ármúla 36 í Reykjavík er nú sýning á verkum Sigurðar Sigurðssonar málara en í ár eru níutíu ár liðin frá fæðingu hans.

Sigurður var fæddur árið 1916.

Hann fór til náms við Listaháskólann í Kaupmannahöfn þremur árum eftir menntaskóla 1939 og hafði þá lokið cand phil. prófi frá Háskóla Íslands. Þar dvaldi hann öll stríðsárin og sneri heim í miðjan slag afstrakt-expressjónismans. Hér voru menn á borð við Kjarval og Ásgrím í mestum metum, en byltingarsveit afstraktmanna var tekin að hræra öldur í heldur ládauðu samfélagi listanna.

Sigurður fylgdi eldri skólum, lagði áherslu á landslagsmálverkið, kyrralífsmyndir og bæjarmótíf. Hann var með afkastamestu portrettmálurum landsins um áratugi. Þá hafði hann ekki minnst áhrif sem yfirkennari Handíða- og myndlistarskólans sem svo hét en þar kenndi hann um áratuga skeið. Hann hélt sýningar í Listamannaskálanum og eina í Neskaupstað 1947, 1953 og 1960, en þá kom langt hlé í sýningarhald hans uns efnt var til stórsýningar á verkum hans 1987 í Listasafni Kópavogs en þar átti hann heimili um áratuga skeið. Hann var forvígismaður íslenskra myndlistarmanna um áratuga skeið.

Sigurður fór ekki hátt með starfa sinn. Ekkert sérrit er til um verk hans og þátt í íslenskri myndlist, fyrr en nú að Smiðjan hefur gefið út lítið snoturt kver sem rekur efni frá sýningunni sem nú er uppi.

Sýningin er sett saman af 22 verkum sem öll eru úr dánarbúi Sigurðar. Fósturdóttir Sigurðar og konu hans Önnu Kristínar, er að flytja til útlanda og vill að verk hans verði hér eftir hjá þeim sem kunna að meta þau. Öll eru þau til sölu og er verð frá 120 þúsundum upp í 1,1 milljón. Mörg verkanna eru þegar seld.

Talað er um Sigurð sem beinan arftaka akademíunnar í evrópskri myndlist þar sem grunneigindir hefðar eru í hávegum hafðar. Ungu fólki okkar daga eru slíkar hugmyndir fjarlægar, enda verður þeim ekki beitt af viti fyrr en menn komast til þroska. Fyrst verða menn tvítugir og svo kemur þroskinn sagði mætur lærimeistari í Reykjavík á síðustu öld. Sigurður lét könnun sinni um málverkið ekki lokið þó hann settist í helgan stein. Á sýningunni má sjá fróðlegt yfirlit um feril hans: mannamyndir, stemningar úr bæjum, kyrralífsmyndir og afstrakt sem hann vann á sjöunda áratugnum. Áhugasamir um myndlist ættu að kynna sér þessa smekklegu sýningu sem hangir uppi í Ármúlanum næstu vikur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×