Erlent

Lífskjör næstbest á Íslandi

Skýrslan kynnt Frá blaðamannafundi í húsnæði Félags Sameinuðu þjóðanna í gær. Tryggvi Jakobsson í pontu og Søren Mandrup Petersen t.h.
Skýrslan kynnt Frá blaðamannafundi í húsnæði Félags Sameinuðu þjóðanna í gær. Tryggvi Jakobsson í pontu og Søren Mandrup Petersen t.h. MYND/Hörður

Noregur, Ísland, Ástralía, Írland og Svíþjóð raða sér í efstu sæti lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (HDI), sem gefinn er út með þróunarskýrslu stofnunarinnar í ár (Human Development Report).

Í lífskjaralistanum er tekið tillit til þriggja þátta, lífslíkna, menntunarstigs og þjóðartekna á mann samkvæmt kaupmáttarstuðli.

Verst eru lífskjörin samkvæmt þessari mælingu í Afríkuríkinu Níger. Það vermir botnsæti listans, það 177., með lífskjarastuðulinn 0,311. Ísland mælist með stuðulinn 0,96 en Noregur 0,965.

Yfirskrift þróunarskýrslu SÞ í ár er „Handan skorts: Völd, fátækt og vatnskreppan í heiminum“. Eins og fram kom í máli Sørens Mandrup Petersen, fulltrúa norrænu skrifstofu þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, sem kynnti skýrsluna á blaðamannafundi í Reykjavík í gær, er í henni vakin athygli á þeim alvarlega vanda sem skortur á aðgengi að neysluvatni veldur í þróunarlöndunum.

Sighvatur Björgvinsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, kynnti á fundinum umfangsmikið vatns- og hreinlætisverkefni sem stofnunin er að hefja í Malaví. Verkefnið verður unnið í samstarfi við þrjú ráðuneyti í Malaví og héraðsstjórnir á Monkey Bay-svæðinu í suðurhluta landsins. Um er að ræða verkefni til fjögurra ára sem hefst fyrir áramót og lýkur í árslok 2010. Verkefnið er stórt á mælikvarða Þróunarsamvinnustofnunar. Kostnaðartölur hljóða upp á rúmlega þrjár milljónir Bandaríkjadala fyrir verkið í heild, þar af er hlutur ÞSSÍ alls 2,6 milljónir dala eða rúmlega 180 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×