Erlent

Meirihluti vill segja skilið við Georgíu

Atkvæði fellur Kosningarnar í Suður-Ossetíu staðfesta fyrst og fremst vilja héraðsbúa til þess að segja skilið við Georgíu.
Atkvæði fellur Kosningarnar í Suður-Ossetíu staðfesta fyrst og fremst vilja héraðsbúa til þess að segja skilið við Georgíu. MYND/AP

Kjósendur í Suður-Ossetíu samþykktu nánast einróma í atkvæðagreiðslu á sunnudaginn að lýsa yfir formlegu sjálfstæði héraðsins, sem tilheyrir Georgíu en hefur þó notið sjálfstæðis í reynd í meira en áratug.

Samkvæmt bráðabirgðatölum greiddu 99 prósent kjósenda sjálfstæði atkvæði sitt. Suður-Ossetíumenn virðast almennt vilja sameinast Rússlandi þegar fram líða stundir. Sjálfstæði héraðsins frá Georgíu er fyrst og fremst hugsað sem áfangi í þá átt.

Meira en þúsund manns létu lífið í harðvítugri borgarastyrjöld aðskilnaðarsinna við Georgíuher á árunum 1991 til 1992, sem braust út í beinu framhaldi af falli Sovétríkjanna.

Stjórn Suður-Ossetíu er í nánum tengslum við Rússland, sem viðurkennir ekki heldur formlega sjálfstæði héraðsins en hefur veitt íbúum þess leyfi til að ganga með rússnesk vegabréf.

Rússneska rúblan er sá gjaldmiðill, sem notaður er í Suður-Ossetíu, og rússneski fáninn blaktir víðast við hún við hlið héraðsfánans.

Kosningarnar á sunnudaginn breyta í sjálfu sér engu um formlega stöðu Suður-Ossetíu vegna þess að Georgía viðurkennir ekki sjálfstæði héraðsins og þar með ekki heldur lögmæti kosninganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×