Ellert B. Schram, Samfylkingunni, settist á þing í gær í stað Helga Hjörvar sem er í tveggja vikna fæðingarorlofi.
Ellert var þingmaður Sjálfstæðisflokksins frá 1971 til 1979 og aftur frá 1983 til 1987. Nítján ár eru því síðan hann sat síðast á þingi. „Ég held að það hafi varla verið búið að finna upp rafmagnsritvélina, hvað þá tölvuna og farsímann," sagði Ellert þegar hann bar saman tímana nú og þegar hann var fyrst kjörinn á þing. „En þetta er eins og að koma heim aftur. Og hafi ég átt erindi hingað 30 ára gamall og blautur á bak við eyrun þá á ég enn þá meira erindi núna með alla mína lífsreynslu og öll mín mistök."
Ellert stóð ekki klár á öllum reglunum sem gilda um fundahöld Alþingis, enda langt síðan hann þurfti að lúta þeim. Sagðist hann þurfa að læra þær upp á nýtt.
Spurður hvort hann ætli sér að flytja mál á þinginu nú segir Ellert fyrstu dagana fara í að skoða sig um. „Mér líður eins og litlu barni að koma í fyrsta sinn í skólann og er svolítið feiminn. Ég sé svo til eftir helgina."
Fjórir sitjandi þingmenn voru á þingi þegar Ellert sat þar síðast; Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Kristjánsson og Steingrímur J. Sigfússon. Rifjaði Ellert upp að síðasta þingveturinn var hann sessunautur Steingríms en þeir sitja aftur hlið við hlið nú.