Starfsmenn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar unnu sleitulaust við snjóruðning í höfuðborginni og nágrenni hennar í gær. Nánast ófært var í borginni í gærmorgun og nokkuð um yfirgefna bíla í vegköntum þar sem bílstjórar höfðu gefist upp á akstrinum.
„Þetta hefur gengið þokkalega, það var erfiðast í morgun vegna skafrenningsins en staðan var sæmileg þegar við hættum í gærkvöldi,“ segir Guðni Hannesson, verkstjóri hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. „Við höldum áfram í dag og reynum að ryðja þær húsgötur sem við náðum ekki að ryðja í gær.“ Hann segir Grafarvog, Grafarholt og Norðlingaholt hafa orðið einna verst úti af hverfum höfuðborgarsvæðisins.
„Ruðningur á okkar vegum hefur gengið vel, við erum ekki með nema lítinn hluta af götum í kringum borgina,“ segir Hjálmar Haraldsson, vaktmaður hjá Vegagerðinni, en Vegagerðin sér um að ryðja götur til Keflavíkur og Hvalfjarðarganga ásamt Miklubraut og Hafnarfjarðarvegi. „Við höfum ekki orðið mikið varir við fólk í vandræðum, það var þá helst í gærmorgun þegar göturnar voru verstar. Þær eru að mestu leyti orðnar hálkulausar núna.“