Erlent

Vilja aukið viðskiptafrelsi

George Bush Bandaríkjaforseti og Laura, eiginkona hans, heilsa forseta Víetnam, Nguyen Minh Triet, og konu hans, Tran Thi Kim Chi, við komuna til fundarins í Hanoi.
George Bush Bandaríkjaforseti og Laura, eiginkona hans, heilsa forseta Víetnam, Nguyen Minh Triet, og konu hans, Tran Thi Kim Chi, við komuna til fundarins í Hanoi. MYND/AP

Kjarnorkudeilan við Norður-Kóreu og endurlífgun alþjóðlegra viðræðna um alþjóðaviðskipti og tolla voru meðal umfjöllunarefna leiðtoga efnahagsbandalags Kyrrahafsríkja, APEC, um helgina. Fundurinn var haldinn í Víetnam.

Svokallaðar Doha-viðræður Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar liðuðust í sundur í sumar og aðildarríki APEC, 21 talsins, vilja ráða bót á því. „Við erum tilbúin að stöðva þráteflið," sagði í yfirlýsingu frá leiðtogum ríkjanna. „Það felur í sér að skera niður landbúnaðarstyrki sem skaða samkeppnisstöðu í viðskiptum, stuðla að betra aðgengi landbúnaðarvöru að mörkuðum, lækka tolla á iðnaðarvörum og styðja viðskipti með þjónustu með tilliti til hagsmuna aðildarríkjanna."

Þrátt fyrir áherslur á alþjóðaviðskipti tröllriðu umræður um Norður-Kóreu fundinum, en ríkið er ekki aðili að APEC.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, benti á Víetnam sem góða fyrirmynd fyrir önnur ríki heimshlutans. „Ef leiðtogar Norður-Kóreu og Myanmar fylgdu fordæmi Víetnam, mundi það opna nýja braut friðar og tækifæra," sagði Rice. Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að heimurinn þyrfti að nálgast kjarnorkudeiluna afar varlega, en af festu.

George Bush Bandaríkjaforseti fagnaði afstöðu Shinzo Abe, nýs forsætisráðherra Japans, sem hefur fylgt Bandaríkjunum að máli í deilunni við stjórnvöld Norður-Kóreu, en kjarnorkutilraun þeirra hinn 9. október vakti óhug á heimsvísu.

„Við viljum að leiðtogar Norður-Kóreu heyri að ef þeir stöðva kjarnorkuáætlanir sínar erum við tilbúin að hefja viðræður við þá um öryggismál og stuðla að nýjum efnahagsaðgerðum í þágu íbúa landsins," sagði Bush eftir stundarlangan fund með Roh Moo-hyun, forseta Suður-Kóreu.

Stjórnvöld Suður-Kóreu hafa ekki verið reiðubúin að styðja aðgerðir gegn Norður-Kóreu að fullu, en studdu þó ályktun Sameinuðu þjóðanna gegn mannréttindabrotum kommúnistastjórnarinnar í Pyongyang.

„Stjórnvöld í Suður-Kóreu eru ábyrg fyrir afleiðingum þessa glæps, að hindra samskipti Kóreuríkjanna," sagði í tillkynningu frá talsmanni Norður-Kóreustjórnar í kjölfar ályktunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×