Dagsbrún tapaði 3,2 milljörðum króna á þriðja fjórðungi ársins. Þetta er nokkuð meira en greiningardeild Glitnis reiknaði með en hún spáði 2,8 milljarða króna tapi á fjórðungnum.
Þá nam tap félagsins tæpum 4,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 554 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra.
Í uppgjöri Dagsbrúnar segir að tekjur Dagsbrúnar (nú 365 hf.) hafi numið 36,1 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins sem er rúm þreföldun frá síðasta ári en þá námu þær rúmum 10,8 milljörðum króna. Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu tæpum 16 milljörðum króna, sem er 12,1 milljarðs króna aukning á milli ára.
Rekstrarhagnaður (EBITDA) af reglulegri starfsemi fyrir óvenjulega liði fyrstu níu mánuði ársins nam tæpum 3,8 milljörðum króna samanborið við rétt rúma 2,3 milljarða króna í fyrra.
Handbært fé Dagsbrúnar frá rekstri án vaxta nam 26 milljónum króna fyrstu níu mánuði ársins sem skýrist af miklum óvenjulegum kostnaði í fjórðungnum og aukningu á rekstrartengdum eignum og skuldum. Á sama tíma í fyrra nam þessi liður tæpum 1,9 milljörðum króna, að því er segir í uppgjörinu.
Heildareignir félagsins í septemberlok námu 87,6 milljörðum króna samanborið við 22,8 milljarða króna í lok síðasta árs.