Um 740 manns höfðu greitt atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík þegar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar lauk klukkan átta. Þar af hafði um helmingur greitt atkvæði í dag.
Kjörfundur hefst klukkan tíu á morgun og stendur til klukkan sex. Kosið verður á fimm stöðum í borginni og verður prófkjörinu framhaldið á sunnudag.
Sextán eru í framboði og stefna þrír á að leiða listann, þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og borgarfulltrúarnir Dagur B. Eggertsson og Stefán Jón Hafstein.