Jose Reina er enn ekki runnin reiðin eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Chelsea á dögunum og segist hann vona að landar sínir í Barcelona vinni ensku meistarana samtals 8-0 í Meistaradeildinni í næstu umferð sem hefst í næstu viku.
"Ég ber auðvitað taugar til landa minna, en eftir það sem gerðist á Stamford Bridge um daginn óska ég þess enn heitar að Barcelona bursti þá. Vonandi vinna þeir báða leikina 4-0 og vonandi vinnum við Benfica og mætum svo Barcelona í næstu umferð," sagði Reina sem fékk rauða spjaldið fyrir að slæma hönd í andlitið á Arjen Robben í leiknum við Chelsea á dögunum.