Stjórnarformaður Chelsea, Bruce Buck, segir að ensku meistararnir hafi litlar áhyggjur af því að liðið sé ekki að vinna neinar vinsældakeppnir í knattspyrnuheiminum um þessar mundir, en félagið hefur verið gagnrýnt á margvíslegan hátt að undanförnu.
"Það er eðlilegt að allir reyni að koma höggi á meistarana hverju sinni og það er í raun ekkert nýtt. Við tökum því ekkert persónulega, svona er þetta bara. Svona var þetta með Manchester United þegar þeirra lið var á toppnum - þá sóttum við hart að þeim, en nú sækja þeir hart að okkur," sagði Buck.