Stjórnarformaður Birmingham, Billy Gold, segir að hann muni ekki stökkva frá borði þó félagið falli í fyrstu deildina í vor og segir að starf knattspyrnustjórans Steve Bruce sé alls ekki í hættu - þvert á móti hafi Bruce aldrei verið öruggari í starfi en einmitt nú.
"Ég mun ekki stinga af úr starfi þó við föllum í vor, en við ætlum auðvitað að gera allt sem í okkar valdi stendur til að bjarga liðinu frá falli," sagði Gold, en Birmingham er í bullandi fallbaráttu þegar tíu umferðir eru eftir í ensku úrvalsdeildinni.
"Takmark mitt nú er að halda liðinu uppi og ég er staðráðinn í að klára það verkefni. Takist það ekki, breytist takmarkið í það að koma liðinu beint upp aftur. Hvort sem það verður - er ég staðráðinn í að halda áfram og við munum halda áfram undir stjórn Steve Bruce. Hann mun stýra liðinu áfram og starf hans hefur í rauninni aldrei verið í minni hættu en akkúrat núna," sagði Gold ákveðinn.