Lið ÍS náði að jafna metin í 1-1 í rimmu sinni við deildarmeistara Hauka í undanúrslitum Iceland Express deildar kvenna í dag með góðum sigri í Kennaraháskólanum 83-71. Liðin þurfa því að mætast að Ásvöllum í oddaleik um hvort liðið mætir Keflavík í úrslitunum.
Þórunn Bjarnadóttir átti frábæran leik í liði ÍS og skoraði 20 stig og hirti 13 fráköst og Maria Conlon kom næst með 16 stig. Í liði Hauka var Megan Mahoney atkvæðamest með 26 stig og 14 fráköst og Helena Sverrisdóttir skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og stal 7 boltum, en var langt frá sínu besta í sóknarleiknum og hitti mjög illa.