Viðskipti innlent

Eimskip kaupir helming í Innovate

Mynd/E.Ól.

Eimskip eignast helming hlutafjár í breska landflutningafyrirtækinu Innovate Holdings fyrir lok apríl. Samkomulag er milli aðila um að Eimskip eignist félagið að fullu síðar en stjórnendur Innovate munu halda áfram störfum.

„Innovate Holdings er leiðandi fyrirtæki í frysti- og kæliflutningum í Bretlandi og vill vaxa frekar," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips. „Hluti af okkar stefnu er að vaxa með innri og ytri vexti."

Velta Innovate er áætluð 15 milljarðar króna á þessu ári en fyrir stuttu tvöfaldaðist félagið að stærð með kaupum á sambærilegu fyrirtæki. Fyrirtækið rekur 25 vörugeymslur á ellefu stöðum á Bretlandseyjum og er geymslugetan 370 þúsund tonn, eða fimmtíuföld geymslugeta Eimskips á Íslandi.

Meðal viðskiptavina Innovate má nefna Tesco, Sainsbury´s, Nestlé og Northern Foods.

Kaupverð hlutanna fæst ekki gefið upp en Glitnir annaðist ráðgjöf vegna kaupanna.

Jafnframt hafa stjórnendur Eimskips greint frá því að þeir séu að ganga frá kaupum á Framaleiðinni sem hefur verið ríkisrekin starfsemi á landflutningum í Færeyjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×