Franski miðjumaðurinn Robert Pires hjá Arsenal hefur alfarið neitað sögusögnum um að hann sé búinn að skrifa undir samning við spænska liðið Villareal, sem einmitt mætir Arsenal í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Pires hefur enn ekki náð samkomulagi við Arsenal um framlengingu á samningi sínum.
"Ég get ekki annað en hlegið þegar ég les allar þessar fréttir. Skoska pressan segir að ég sé á leið til Rangers, ítalska að ég sé á leið til Fiorentina og Roma. Ég get sagt það að það eru engar viðræður í gangi við einn eða neinn - þó vissulega sé gaman að vita ef einhver hefur áhuga á manni," sagði Pires.