San Antonio Spurs lagði Seattle Supersonics 104-95 á heimavelli sínum í nótt og er í lykilstöðu með að ná efsta sætinu í Vesturdeildinni fyrir úrslitakeppnina. Á meðan Tim Duncan er enn að ná sér eftir flensu, var Tony Parker besti maður Spurs í nótt og skoraði 27 stig og átti 9 stoðsendingar þó hann segðist sjálfur vera búinn að smitast af þessari sömu flensu.
Chicago laumaði sér upp að hlið Philadelphia í áttunda sætið í Austurdeildinni með gríðarlega mikilvægum sigri á heitu liði New Jersey Nets 104-101. Vince Carter skoraði 43 stig fyrir New Jersey, en Ben Gordon skoraði 36 stig fyrir Chicago og Andres Nocioni skoraði 20 stig og hirti 17 fráköst.
Shaquille O´Neal náði annari þrennu sinni á ferlinum og þeirri fyrstu í yfir 10 ár þegar hann skoraði 15 stig, hirti 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar í 106-97 sigri Miami á Toronto. Annars var Antoine Walker stigahæstur í liði Miami með 32 stig og Dwayne Wade spilaði ekki með vegna flensu. Mike James skoraði 32 stig fyrir Toronto.
Memphis vann auðveldan heimasigur á varaliði Minnesota 92-76. Pau Gasol skoraði 19 stig og hirti 10 fráköst fyrir Memphis, en Justin Reed skoraði 14 stig fyrir Minnesota.
Phoenix vann ævintýralegan útisigur á Sacramento 123-110, eftir að hafa mest lent 17 stigum undir í leiknum. Raja Bell var stigahæstur í liði Phoenix með 25 stig, en þeir Brad Miller, Mike Bibby og Ron Artest skoruðu allir 23 stig fyrir Sacramento.
Loks vann LA Lakers heillum horfið lið Golden State 111-100 á heimavelli sínum þar sem Kobe Bryant skoraði 30 af 31 stigi sínum í fyrri hálfleik fyrir Lakers og Lamar Odom náði þrennu með 15 stigum, 13 fráköstum og 10 stoðsendingum. Bryant spilaði ekkert í fjórða leikhluta þar sem úrslit leiksins voru ráðin. Jason Richardson skoraði 20 stig fyrir Golden State.