Manchester United vann í dag góðan útisigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og kom þar með í veg fyrir að Chelsea gæti tryggt sér meistaratitilinn með sigri á Everton í dag. Tvö mörk frá Wayne Rooney á fyrsta hálftímanum komu United í veglega stöðu, en Jermaine Jenas minnkaði muninn fyrir heimamenn á 52. mínútu. Tottenham sótti hart að marki United það sem eftir lifði leiks, en varð að sætta sig við fyrsta tap sitt á heimavelli í átta mánuði.
