Leikmenn Miami Heat hafa verið meira áberandi fyrir agabrot og kveinstafi en að spila góðan körfubolta það sem af er úrslitakeppninni í ár. Udonis Haslem hefur þegar setið af sér bann fyrir að láta skapið hlaupa með sig í gönur og nú þarf Shaquille O´Neal að opna budduna og greiða háa sekt, á meðan James Posey verður í banni í næsta leik fyrir agabrot í þriðja leik liðsins við Chicago í fyrrinótt.
Shaquille O´Neal hefur verið sektaður um 25.000 dollara fyrir að gagnrýna dómarana harðlega eftir tapleikinn gegn Chicago í fyrrakvöld. O´Neal átti þar líklega einhvern lélegasta leik sinn á ferlinum og var í villuvandræðum allan leikinn. Hann skoraði aðeins 8 stig og tapaði 7 boltum í leiknum.
O´Neal misbauð svo dómgæslan í leiknum að hann sagði að dómararnir hefðu niðurlægt sig með dómum sínum í leiknum og þarf nú að greiða himinháa sekt fyrir. Þess ber til gamans að geta að þó gagnrýni tröllsins á dómarana hafi vissulega farið yfir strikið - hafði hann mjög mikið til síns máls því margar ákvarðanir þeirra gráklæddu í leiknum voru vægast sagt undarlegar.
James Posey verður í leikbanni í fjórða leik liðanna eftir að aganefnd fór yfir atvik sem átti sér stað undir lok þriðja leiksins þegar Posey setti öxlina í Kirk Hinrich hjá Chicago í hraðaupphlaupi og braut á honum í hreinum ásetningi. Brotið átti sér einmitt stað beint fyrir framan nefið á Stu Jackson sem var á meðal áhorfenda á leiknum, en Jackson er sá sem hefur mest að gera með úrskurði aganefndarinnar í deildinni.