Innlent

Allir viðskiptabankarnir skiluðu methagnaði

MYND/Vísir

Viðskiptabankarnir þrír skiluðu allir methagnaði á fyrstu þremur mánuðum ársins. Samtals nemur hagnaðurinn rúmlega fjörutíu milljörðum króna.

KB banki var fyrstur bankanna þriggja til að birta afkomutölur fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs í síðustu viku. Hagnaðurinn nam tæpum nítján milljörðum króna eftir skatta og jókst um tæp sjötíu prósent frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður bankans hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi.

Sömu sögu er að segja af Landsbankanum sem birti uppgjör sitt í morgun. Hagnaður hans nam 14.3 milljörðum króna eftir skatta á fyrstu þremur mánuðum ársins, en til samanburðar var hann um helmingi minni í fyrra, eða 7,4 milljarðar króna.

Glitnir birti sínar afkomutölur einnig í morgun, og þar var enn eitt metið slegið hvað varðar hagnað á einum ársfjórðungi. Hagnaður Glitnis var þó nokkuð minni en hinna viðskiptabankanna tveggja, eða rétt rúmir níu milljarðar króna. Það breytir því ekki að sá hagnaður er þrefalt meiri en hagnaður bankans á sama tímabili í fyrra.

Ef fjárfestingabankinn Straumur-Burðarás er tekinn inn í dæmið líka er fjórða metið fallið, því hann hefur ekki, frekar en hinir bankarnir, skilað meiri hagnaði á einum ársfjórðungi. Hagnaður hans var ríflega nítján milljarðar króna, sem er 317 prósenta aukning frá síðasta ári.

Samtals hagnaður bankanna fjögurra nemur því 61,5 milljörðum króna það sem af er ári.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×