Innlent

Deilt um skattbyrði í ljósi nýrra útreikninga

MYND/GVA

Síðustu þrír fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru mestu skattpíningarráðherra Íslandssögunnar fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í umræðum á þingi í kvöld um skattbyrði. Fjármálaráðherra sakaði Samfylkinguna um hentistefnu í skattaumræðum og sagði vitlausar fullyrðingar um skattbyrði ekki verða réttari þótt fleiri endurtækju þær.

Jóhanna Sigurðardóttir kvaddi sér hljóðs á þingfundi í kvöld og vakti athygli á svari fjármálaráðherra við fyrirspurn hennar um þróun skattbyrði síðustu árin. Þar sagði hún enn einu sinni staðfest að skattbyrði hefði aukist á fólk með lágar og meðaltekjur í tíð núverandi ríkisstjórnar. Síðustu þrír fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, þeir Friðrik Sophusson, Geir H. Haarde og Árni Mathiesen væru mestu skattpíningarráðherra Íslandssögunnar fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra benti á að í fyrirspurnum gæfi fyrirspyrjandi ákveðnar forsendur sem óskað væri eftir að reiknað væri eftir. Ef forsendurnar væru rangar kæmi út röng niðurstaða. Það væri alveg sama þótt rétt væri reiknað hjá fjármálaráðuneytinu. Ef forsendur væru rangar kæmi út röng niðurstaða því ekki væri hægt að bera saman epli og appelsínur.

Fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kvöddu sér hljóðs og bentu á að ýmsir aðilar, eins og fjölmiðlar og Stefán Ólafsson prófessor, hefðu sýnt fram á aukna skattbyrði hinna tekjulægstu.

Ráðherra sakaði Samfylkingarþingmenn um hentistefnu í skattaumræðum, einn daginn hefðu skattar lækkað en annan hækkað. Hann sagði enn fremur að vitleysan væri ekkert réttari þótt fleiri endurtækju hana. Það væri alveg til í dæminu að prófessorar færu með staðlausa stafi, það hefði oft gerst áður. Slíkt hið sama ætti við um fréttamenn, dæmi væru um að þeir hefðu farið með staðalausa stafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×