Jurgen Klinsmann segir að Þjóðverjar séu nú að endurskoða þau markmið sem þeir settu sér fyrir HM. Klinsmann hafði vonast til að koma liðinu í fjórðungsúrslit keppninnar, en segir lið sitt nú setja stefnuna enn hærra. Hann segist jafnframt aldrei hafa séð skemmtilegri spilamennsku hjá þýska landsliðinu en það sýndi í leiknum gegn Svíum í dag.
"Við ætlum okkur sannarlega lengra en í fjórðungsúrslitin, því við erum að verða hungraðari eftir því sem á mótið líður en ekki saddari. Það væri líka óeðlilegt ef stór knattspyrnuþjóð eins og Þýskaland hefði ekki metnað til að ná lengra í keppninni þegar hún er haldin á okkar heimavelli. Það er unun að horfa á liðið spila og ég hef aldrei séð þýskt landslið spila eins skemmtilega og við gerðum fyrsta hálftímann gegn Svíum," sagði Klinsmann, sem er á góðri leið með að breytast úr skúrk í hetju í heimalandinu.