Innlent

Sérsveitin kölluð að Kvíabryggju

MYND/365
Það var upp úr hádegi í gær sem fanga á Kvíabryggju bárust líflátshótanir frá manni í Reykjavík í gegnum síma. Hótanirnar þóttu það alvarlegar að rétt væri að kalla til sérsveit Ríkislögreglustjóra. Erlendur Baldursson deildarstjóri hjá Fangelsismálastofnun segir að maðurinn hafi hringt og sagst ætla að koma með skotvopn og ganga frá tilteknum fanga. Maðurinn hafi kynnt sig og hafi lögreglan metið það sem svo að alvara væri á bak við hótanirnar og rétt væri að kalla til sérsveitarinnar. Lögreglan á Ólafsvík hafi því staðið vörð um Kvíabryggju ásamt tveimur mönnum frá sérsveitinni yfir daginn. Maðurinn gerði hins vegar aldrei alvöru úr hótunum sínum. Aukamenn voru þó á vakt á Kvíabryggju í nótt. Samkvæmt heimildum NFS tengjast hótanir utanaðkomandi mannsins fortíð fangans sem afplánar þriggja ára dóm fyrir margvísleg ofbeldisbrot. Hann var þekktur handrukkari og fjölluðu fjölmiðlar ítarlega um brot hans á sínum tíma, meðal annars í tengslum við árás á leikstjórann Friðrik Þór Friðriksson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×