Innlent

Þreyttur og kaldur eftir hrakningar næturinnar

Mynd/GVA

Maðurinn, sem leitað var að í Skaftafelli frá því á hádegi í gær, var orðinn hrakinn, kaldur og svangur þegar björgunarmenn fundu hann á Skeiðarársandi í morgun. Hann fannst kl. 8 í morgun u.þ.b fimm kílómetra fyrir sunnan þjóðveginn á milli Skaftafellsár og Skeiðarár. Björgunarmenn á fjórhjólum höfðu áður fundið spor í sandinum og röktu þau til mannsins. Hann var þreyttur og hrakinn, en ómeiddur. Hann var ekki vel búin til útivistar og rigning var á leitarsvæðinu í nótt, en það varð honum til happs að nokkuð hlýtt var og ekki hvasst. Hátt í 200 leitarmenn ásamt leitarhundum tóku þátt í leitinni þegar mest var og þyrla Landhelgisgæslunnar hóf leit í gærkvöldi og leitaði fram í myrkur. Hún var aftur byrjuð leit í morgun þegar maðurinn fannst, en leitin var strax blásin af. Ekki liggur fyrir hvers vegna maðurinn yfirgaf tjaldstæðið við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli í fyrrinótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×