Innlent

Askja afhendir Rauða krossinum átta sjúkrabíla

Til hamingju með bílana. Páll Halldór Halldórsson sölustjóri hjá Öskju, til vinstri, og Benedikt Harðarson frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Til hamingju með bílana. Páll Halldór Halldórsson sölustjóri hjá Öskju, til vinstri, og Benedikt Harðarson frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Askja afhenti á dögunum Rauði krossi Íslands tvo sjúkrabíla af gerðinni Benz Sprinter. Sex bílar til viðbótar sömu gerðar verða afhentir á næstu mánuðum og fara þeir í notkun vítt og breytt um landið. Fyrstu bílarnir fóru til Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og hafa reynst vel það sem af er, að sögn Benedikts Höskuldssonar deildarstjóra þar á bæ.

Sjúkrabílarnir nýju eru sjálfskiptir með fjórhjólabúnað frá Iglhaut GmbH í Þýskalandi. Það fyrirtæki sá einnig aflaukningu á mótor, sem er nú 186 hö. Breytingarvinna og smíði inn í bílanna var unnin af Sigurjóni Magnússyni á Ólafsfirði í samstarfi við Rauða krossinn og sjúkraflutningamenn.

Bílarnir nýju eru einungis um 2,5 tonn að eigin þyngd og munu leysa af hólmi eldri bíla af Ford gerð, sem hafa verið uppistaðan í sjúkrabílaflota landsmanna síðustu ár. Það er talsverð spenna meðal sjúkraflutningamanna og seljenda bíls og búnaðar hvernig þessir nýju bílar koma til með að reynast en reynslan erlendis frá gefur góð fyrirheit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×