Miðjumaðurinn Michael Ballack hjá Chelsea vonast enn til að geta verið með á sunnudaginn þegar Chelsea mætir Manchester City í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni. Ballack fór meiddur af velli í leiknum um samfélagsskjöldinn um síðustu helgi og verður ekki með landsliði Þjóðverja sem tekur á móti Svíum annað kvöld.
"Meiðslin lýsa sér þannig að ég er marinn í kring um mjöðmina og finn mikið til. Ég er líka nokkuð bólginn en ég vonast til að geta spilað gegn Manchester City á sunnudaginn," sagði Ballack.