Viðskipti innlent

Minni hagnaður hjá Opnum Kerfum Group

Hagnaður Opinna Kerfa Group hf. nam 46 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er tæplega helmingi minni hagnaður en á sama tíma fyrir ári en þá nam hagnaðurinn 86 milljónum króna.

Opin Kerfi Group hf. samanstendur af móðurfélaginu, tveimur eignarhaldsfélögum og þremur rekstrarfélögum sem eru: Opin kerfi ehf., Kerfi AB í Svíþjóð og Kerfi A/S í Danmörku.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að heildarvelta samstæðu Opinna Kerfa hafi numið rúmum 6,4 milljörðum króna á tímabilinu samanborðið við rúma 5,6 milljarða árið á undan. Um 74 prósent tekna eiga uppruna sinn í erlendri starfsemi félagsins. Hlutfallið var 68 prósent í fyrra.  

Þá eru 75 prósent tekna fyrirtækisins komin frá sölu á vél- og hugbúnaði en fjórðungur eru þjónustutekjur.

Rekstrarhagnaður Opinna Kerfa fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 143 milljónir króna sem er 34 milljónum minna en í fyrra. Lækkunin er aðallega komin vegna breytinga á niðurstöðu félagsins í Danmörku. Forráðamenn félagsins gera ráð fyrir að í heild verði EBITDA ársins töluvert meiri nú en á fyrra ári.  

Þekktar árstíðabundnar sveiflur í rekstrinum gera það að verkum að þriðji árshluti er ávallt slakur, en síðasti fjórðungur sterkur, sem skilar þá seinni árshelmingi sem er að öðru jöfnu töluvert betri en sá fyrri, segir í sex mánaða uppgjöri félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×