Ísland er í 9. sæti á lista yfir efnahagslegt frelsi þjóða en frelsi af þessum toga er mun áhrifaríkara en ríkisstyrkt þróunaraðstoð við að hjálpa fátækum þjóðum að flýja fátæktina. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu um efnahagsfrelsi í heiminum, sem Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) birti í dag.
Í nýrri rannsókn sem fylgir skýrslunni kemur m.a. fram að þróunaraðstoð hafi ekki jákvæð áhrif á hagvöxt meðal fátækustu þjóða. Í niðurstöðunum kemur ennfremur fram að efnhagslegt frelsi hafi mikil áhrif á velmegun almennt og í baráttu þjóða við að brjótast úr fátækt. Um leið og litið sé til efnahagslegs frelsis komi í ljós að hagur fátækari þjóða vaxi mun hraðar en ríkra, og við slíkar aðstæður fari því fjarri að þær séu fastar í vítahring fátæktar.
Ísland er í 9. sæti ásamt Lúxemborg á lista yfir efnhagslegt frelsi þjóða en var í 13. sæti í skýrslunni árið 2005. Ísland fær einkunnina 7,9 af 10 mögulegum og hækkar um 0,2 stig á milli ára.
Þá sýnir skýrslan að efnahagslegt frelsi hefur aukist í heiminum á
síðasta aldarfjórðungi, sem eru góðar fréttir fyrir jarðarbúa, einkum hina
allra fátækustu í veröldinni, að því er segir í tilkynningu frá RSE.