Argentínski framherjinn Carlos Tevez, sem nýverið gekk í raðir West Ham, segist ólmur vilja feta í fótspor landa sinna Ossie Ardiles og Ricardo Villa sem gerðu garðinn frægan með liði Tottenham fyrir um 30 árum síðan og ruddu leiðina fyrir útlendinga í ensku knattspyrnunni.
"Vonandi getum við náð svipuðum árangri og þeir Villa og Ardiles, því þeir eru báðir goðsagnir. Við ætlum þó að halda okkur á jörðinni, því við erum auðvitað ólíkir leikmenn, en okkur líst einstaklega vel á móttökurnar sem við höfum fengið. Við erum báðir óðir og uppvægir í að sanna okkur í ensku knattspyrnunni og náum vonandi að vinna titla með liðinu," sagði Tevez, sem fljótlega spilar sinn fyrsta leik með West Ham ásamt félaga sínum Javier Mascherano.