Varnarmaðurinn Rio Ferdinand hjá Manchester United greinir frá því í óútkominni bók sinni að hann hafi óttast mjög að verða seldur frá félaginu í kjölfar þess að myndir náðust af honum og Peter Kenyon, yfirmanni knattspyrnumála hjá Chelsea, á veitingahúsi í fyrra. Ferdinand segist aldrei hafa séð Alex Ferguson jafn reiðan og í kjölfarið.
Ferdinand greinir frá þessu í bók sinni sem kemur út fljótlega, en breska blaðið Sun hefur birt nokkra kafla úr bókinni. "Ég áttaði mig strax á því að þetta liti ekki vel út og reyndi að hafa samband við Ferguson, en náði ekki í hann. Þegar ég svo mætti á æfingu hjá United, var Ferguson búinn að sjá mynd af mér með Kenyon í blaðinu - og hann gjörsamlega sleppti sér. Ég hef aldrei séð hann jafn fokvondann - ekki einu sinni þegar ég mætti ekki í lyfjaprófið forðum," sagði Ferdinand.
Hann segist hafa óttast að verða seldur frá Manchester United í kjölfarið. "Ferguson spurði mig hvern fjandann ég hefði verið að hugsa. Sér væri sama hvað við Kenyon hefðum verið að tala út - þetta liti hræðilega út í blöðunum, sama hvað þarna hefði farið fram. Ég sagði honum að ég vildi alls ekki fara frá United - en honum rann ekki reiðin og ég óttaðist mjög um framtíð mína hjá félaginu í kjölfarið," sagði Ferdinand.