Þremur ungmennum, sem lögreglan á Selfossi handtók snemma í gærmorgun eftir þjófnað í félagsheimilinu Árnesi í fyrrinótt, var sleppt seint í gærkvöldi eftir ítarlegar yfirheyrslur. Andvirði þýfisins úr Árnesi er hátt í milljón króna, fyrir utan tjón, sem fólkið vann á innréttingum og húsbúnaði. Þá reyndist fólkið hafa ýmis afbrot víða um land á samviskunni, og var það meðal annars á bíl, sem það hafði stolið á Húsavík nýverið, þegar það fór ránshendi um bæinn.
