Ákvörðunin var tekin á stjórnarfundi Dagsbrúnar í morgun og er markmiðið með breytingunum að lækka tilkostnað og leggja stóraukna áherslu á vefmiðilinn Vísir.is. Þar verður fréttavakt frá morgni til kvölds.
Fréttastofa NFS verður áfram með fréttir á Stöð 2 að morgni, í hádegi og að kvöldi og Ísland í dag og Ísland í bítið verða áfram á dagskrá. Útsendingum NFS verður hætt klukkan átta í kvöld.
Eftir breytingarnar munu stöðugildi í starfsmannahaldi NFS verða u.þ.b. 55 en auk þess koma lausráðnir starfsmenn og verktakar að þessari starfsemi. 20 starfsmönnum er sagt upp störfum, þar af 7 frétta- og dagskrárgerðarmönnum.
Fréttastjóri NFS verður sem fyrr Sigmundur Ernir Rúnarsson og aðstoðarfréttastjórar verða Þór Jónsson sem mun einbeita sér sérstaklega að sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og Þórir Guðmundsson, sem mun stýra fréttaflutningi NFS á visir.is og Bylgjunni. Elín Sveinsdóttir verður framleiðslustjóri NFS.
Útsendingum NFS verður hætt klukkan átta í kvöld.