Spænska knattspyrnufélagið Athletic Club Bilbao hefur nú í fyrsta sinn ráðið konu sem forseta. Sú heitir Ana Urkijo og tekur hún við embættinu tímabundið eftir að Fernando Lamikiz sagði af sér. Urkijo er 51 árs gömul og gegndi áður embætti varaforseta félagsins, en hún tók formelga við starfinu eftir stjórnarfund í dag.
Bilbao er sem kunnugt er frá Baskalandi og er eina liðið í sögu efstu deildar á Spáni auk Barcelona og Real Madrid, sem aldrei hefur fallið úr efstu deild. Félagið var stofnað árið 1898 og hefur spilað í efstu deild á Spáni síðan hún var stofnuð árið 1928. Bilbao hefur átta sinnum unnið spænsku deildina og bikarkeppnina 28 sinnum.