Erlent

Börn ekki undanþegin dauðarefsingu

MYND/AP

Börn undir átján ára aldri eiga alltaf að vera undanþegin dauðarefsingu að mati mannréttindasérfræðings Sameinuðu þjóðanna sem rannsakað hefur ofbeldi gegn börnum. Einnig eiga þeir sem frömdu glæp þegar þeir voru undir átján ára aldri að vera undanþegnir dauðarefsingu. Kína, Pakistan og Íran hafa á síðstu þremur árum tekið dæmda glæpamenn yngri en átján ára af lífi.

Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, bað mannréttindasérfræðinginn Paulo Sergio Pinheiro að framkvæma fyrstu alþjóðlegu rannsóknina á ofbeldi gegn börnum. Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á ofbeldi gegn börnum í heiminum og sýna fram á leiðir til að vernda börn gegn ofbeldi.

Sameinuðu þjóðirnar skilgreina alla undir átján ára aldri sem börn. Aðeins þrjú ríki, það er Kína, Pakistan og Íran, hafa tekið börn undir átján ára aldri, sem dæmd hafa verið fyrir glæp, af lífi. Fleiri lönd hafa einnig lög sem gera þeim kleift að gera slíkt hið sama en segja að þau muni aldrei fara þá leið.

Hæstiréttur Bandaríkjanna bannaði í mars 2005 að dauðarefsingu yrði beitt á unglinga. Á þeim tíma leyfðu meira en tuttugu fylki dauðarefsingar og sjötíu fangar sem voru aldrinum sextán til sautján ára biðu þess að líflátsdómi yfir þeim yrði framfylgt.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×