Erlent

Ísraelsher farinn frá Líbanon

MYND/AP

Síðustu ísraelsku hermennirnir yfirgáfu Líbanon seint í gærkvöldi. Þar með hefur einu grundvallarskilyrðinu fyrir vopnahléi milli Hizbollah og Ísraels, verið fullnægt.

Síðustu hermennirnir keyrðu yfir landamærin um klukkan hálftólf í gærkvöldi að íslenskum tíma, rétt fyrir byrjun Yom Kippur, helgasta dags gyðinga, sem hefst formlega við sólsetur í kvöld. Það tók þessar síðustu herdeildir aðeins nokkrar klukkustundir að pakka saman og íbúar í grennd gátu heyrt rym frá skriðdrekunum langt fram á nótt þar sem þeir mjökuðust yfir landamærin.

Þar með er þriggja mánaða veru ísraelska hersins í suðurhluta Líbanons lokið. Friðargæslulið frá Sameinuðu þjóðunum tekur nú við landamæravörslu og fylgist með því að vopnahléð sé virt. Friðargæsluliðar frá Gana voru þegar komnir til Marwaheen í morgun, til að sannreyna að Ísraelsher væri farinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×