Viðskipti innlent

Kauphöllin áminnir Atorku

Kauphöll Íslands áminnti Atorku Group opinberlega í dag vegna brota á reglum Kauphallarinnar vegna birtingar á uppgjöri félagsins á fyrri hluta ársins. Beitti Kauphöllin félagið 2,5 milljóna króna févíti.

Í fyrirsögn uppgjörs Atorku Group sagði að hagnaður félagsins á fyrri hluta árs hefði verið 4,9 milljarðar króna en komið hafi í ljós við lestur uppgjörsins að hann hefði verið 187 milljónir króna. Hafi lykiltölur sem fram komu í fréttatilkynningunni um uppgjörin aðeins verið lykiltölur móðurfélagsins en engar lykiltölur hafi veirð um samstæðuna.

Þá segir í mati Kauphallarinnar að Atorka hafi enn ekki birt fullnægjandi leiðréttingu á fréttatilkynningunni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir að hálfu Kauphallarinnar.

Í Hálffimm fréttum KB banka um málið kemur fram að ákvörðun um beitingu opinberrar áminningar og févítis sé tekin á grundvelli samnings Atorku við Kauphöllina vegna skráningar hlutabréfa félagins í Kauphöll Íslands en í samningnum segir m.a. að vegna brota útgefanda á reglum Kauphallarinnar sé henni heimilt að birta opinbera yfirlýsingu varðandi umrætt mál og beita viðurlögum í formi févítis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×