Sóknarmaðurinn ungi Luke Moore hjá Aston Villa þarf að öllum líkindum að fara í uppskurð vegna þrálátra meiðsla á öxl og svo gæti farið að hann yrði frá keppni það sem eftir lifir tímabils vegna þessa.
Þessi tvítugi sóknarmaður hefur staðið sig vel á vinstri vængnum undir stjórn Martin O´Neill það sem af er leiktíðinni, en hann fór úr axlarlið í leiknum gegn Chelsea um helgina og það ekki í fyrsta skipti. Nú þykir læknum Villa nóg um og sýnt þykir að leikmaðurinn þurfi í uppskurð til að laga þetta vandamál, sem leikmaðurinn sjálfur segist hafa barist við í þrjú ár.