Erlent

Reyndi að ráðast inn í hús forsætisráðherra

Girðingin við Downing-stræti 10 sem vopnaður maður klifraði yfir í dag.
Girðingin við Downing-stræti 10 sem vopnaður maður klifraði yfir í dag. MYND/AP

Maður vopnaður hnífi reyndi í dag að ráðast inn í aðsetu Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, við Downing-stræti 10 í Lundúnum. Maðurinn var handtekinn eftir að hann hafði klifrað yfir girðingu aftan við húsið sem liggur samsíða þeirri hlið byggingarinnar sem snýr að götu sem opin er almenningi.

Maðurinn hefur verið ákærður fyrir vopnaburð og að hafa ráðist að lögreglumanni. Hann heitir Byung Jin Lee og er 32 ára. Hann mun hvergi vera með fasta búsetu. Honum verður gert að mæta fyrir dómara á morgun.

Lögregla segir ekkert benda til þess að Lee tengist hryðjuverkasamtökum og því ekki um tilraun til hryðjuverka að ræða. Forsætisráðherra mun ekki hafa verið í beinni hættu en hann var þó í húsinu þegar maðurinn reyndi að ráðast til inngöngu. Hefð er fyrir því að heimili og skrifstofa forsætisráðherra sé í húsinu en Blair og fjölskylda hans hafa búið í Downing-stræti 11.

Öryggisgæsla við Downing-stræti 10 verður nú tekin til gagngerrar endurskoðunar. Gæsla þar hefur verið hert til muna síðustu árin. Gatan liggur milli þinghússins og Trafalgar-torgs og hefur verið lokuð ferðamönnum í mörg ár.

Ein alvarlegasta árás á húsið var gerð þegar liðsmenn Írska lýðveldishersins, IRA, skutu úr sprengjuvörpu á það í febrúar 1991. John Major, þáverandi forsætisráðherra, sat þá á fundi í Downing-stræti 10 með öllum ráðherrum í ríkisstjórn sinni. Sprengjurnar sprugnu í garði nálægt fundarherberginu. Engan sakaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×