Erlent

Verðlaunamynd tryggði gervihendi

Níu ára drengur, sem missti vinstri hönd sína í jarðskjálftanum í Pakistan í október í fyrra, hefur fengið gervihendi eftir að þýsk kona sá mynd af honum og ákvað að færa hann undir hendur færustu sérfræðinga á Ítalíu. 80 þúsund manns fórust í hamförunum og fjölmargir örkumluðust.

Zeeshan Kazmi missti hendina í jarðskálftanum sem mældist sjö komma sex á Richter. Hann hafði skrópað í skólann með bróður sínum og voru þeir að leik á heimili sínum þegar skjálftinn reið yfir. Bróðir Zeeshans týndi lífi. Bandarískur fréttaljósmyndari, David Guttenfelder, náði mynd af Zeeshan á sjúkrahúsi nokkru síðar og vakti sú ljósmynd heimsathygli og færði myndasmiðnum World Press Photo verðlaunin.

Sylvia Eibl, sem rekur góðgerðarsamtök í Þýskalandi, sá myndin og ákvað að hafa upp á Zeeshan og koma honum til sérfræðinga á Ítalíu sem gætu útvegað honum gervihendi. Eibl lagði af stað til Pakistans með hundrað afrit af ljósmyndinni frægu og tókst eftir nokkuð ferðalag að finna Zeeshan. Hún flutti hann til Bologna á Ítalíu þar sem á hann var fest gervihendi.

Zeeshan sneri síðan aftur til Islamabad í síðasta mánuði. Hann segist nú geta gert ýmislegt, svo sem eins og haldið á skóalbókum sínum og unnið ýmis verk.

Farðir Zeeshans horfir björtum augum fram á veg. Hann segir að með Guðs hjálp farnist Zeeshan vel og geti lagt stund á nám sitt. Hann vonast til að honum verði allir vegir færir í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×