Erlent

Hastert ætlar ekki að víkja

Dennis Hastert, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings.
Dennis Hastert, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings. MYND/AP

Dennis Hastert, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, ætlar ekki að segja af sér vegna hneyslismáls sem nú skekur Repúblíkanaflokkinn. Upp komst um það að fyrrverandi fulltrúardeildarþingmaður, Mark Foley, hefði sent klúr tölvupóstskeyti til ungra drengja sem unnu fyrir þingið. Foley hefur nú sagt af sér og beðist afsökunar á framferði sínu. Hastert segist þó bera fulla ábyrgð á að ekki hafi verið gripið í taumana fyrr. Hann sagðist gera allt sem í sínu valdi stæði til að koma í veg fyrir að svona nokkuð gerðist aftur.

Hneykslismálið hefur verið helsta umræðuefnið í bandarískum fjölmiðlum nú í aðdraganda þingkosninga í næsta mánuði. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að það gæti haft áhrif á fylgi Repúblíkanaflokksins og gætu Demókratar náð meirihluta í fulltrúadeildinni ef úrslit verði í anda kannanna.

Hastert boðaði til blaðamannafundar í dag eftir að upplýst var að starfsmannastjóri Foley hefði varað við hegðun yfirmannsins síns fyrir rúmum þremur árum. Sá lét síðan af störfum árið 2004.

Fjölmargir Repúblíkanar telja að Hastert eigi að víkja en hann hefur nú ákveðið að gera það ekki.

Mál Foleys verður nú tekið fyrir í siðanefnd þingsins sem þó hefur ekkert úrskurðarvald yfir Foley. Málið verður hins vegar rannsakað ofan í kjölinn í nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×