Tólf eru látnir og um tuttugu slasaðir eftir lestarslysið í Lorraine-héraði í Frakklandi í morgun þar sem farþegarlest og flutningalest rákust saman. Áreksturinn varð í Zoufftgen, nærri landamærunum að Lúxemborg, en farþegalestin var á leið til Nancy.
Hafði lestunum fyrir mistök verið beint inn á sömu teina þar sem verið var að gera við aðra teina á svæðinu. Báðir lestarstjórarnir léstust í árekstrinum auk níu farþega og starfsmanns sem var að vinna við teinana. Yfir hundrað björgunarmenn hafa unnið á vettvangi í dag en ekki liggur fyrir hversu margir voru í farþegalestinni. Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, er á leið á vettvang ásamt samgönguráðherra landsins en rannsókn á tildrögum þess er rétt að hefjast.