Erlent

Sendiherra Íslands kallaður til fundar við sjávarútvegsráðherra Breta

Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands.
Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands. MYND/Róbert Reynisson

Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands, hefur kallað Sverri Hauk Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi, á sinn fund. Þar verður honum gert að skýra forsendur þær sem liggi fyrir ákvörðun íslenskra stjórnvalda að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Bradshaw segir stefnu íslenskra stjórnvalda óskiljanlega og óafsakanlega. Hann segir engin rök að baki ákvörðuninni. Auk þess geti Íslendingar varla fundið markað fyrir hvalkjöt.

Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sjávarútvegsráðuneytisins, segir í samtali við BBC að íslensk stjórnvöld hafi ekki áhyggjur. Auðvitað hafi Íslendingar átt í góðum samskiptum við Breta og önnur lönd og vonir bundar við að fulltrúar ríkja sem séu okkur ósammála reyni þó að sjá málin frá sjónarhorni Íslendinga. Hann bætir því við að vitað sé um andstöðu breskra stjórnvalda við hvalveiðum.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, tilkynnti á Alþingi í gær að hvalveiðar í atvinnuskyni og veiðar á stórhvölum yrðu hafnar á ný. Heimilað verður að veiða 9 langreyðar og 30 hrefnur til viðbótar þeim 39 hrefnum sem áður var ákveðið að yrðu veiddar í vísindaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×