Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að sækja tvítugan mann í Milwaukee til saka fyrir að hafa birt falsaða hótun á Netinu um að hryðjuverkamenn hygðust sprengja svokallaðar skítugar sprengjur á sjö stórum fótboltavöllum í landinu.
Maðurinn gaf sig fram við yfirvöld í morgun en í hótuninni sagði hann að geislavirkar sprengjur yrðu fluttar á vellina í flutningabílum og sprengdar þar um helgina þegar leikir í ameríska fótboltanum færu fram. Jafnframt sagði hann að Osama bin Laden myndi lýsa yfir ábyrgð á árásunum.
Haft er eftir ónefndum starfsmanni alríkislögreglunnar að maðurinn hafi viðurkennt að hafa sett hótunina á Netið en hann mun hafa verið í einhvers konar keppni við annan mann um hvor þeirra gæti birt ógnvænlegri hótun.