Erlent

Mannfallstölur fást ekki lengur frá íraska heilbrigðisráðuneytinu

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks (tv.), og herskái sjíaklerkurinn Moqtada al-Sadr eftir fund þeirra í Najaf fyrr í vikunni.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks (tv.), og herskái sjíaklerkurinn Moqtada al-Sadr eftir fund þeirra í Najaf fyrr í vikunni. MYND/AP

Íraska heilbrigðisráðuneytið mun ekki lengur veita Sameinuðu þjóðunum upplýsingar um mannfall meðal almennra borgara í Írak. Þar með fá samtökin ekki lengur mikilvægar upplýsingar sem gera þeim mögulegt að leggja mat á hversu alvarleg áhrif átök í landinu hafi á almenna borgara. Upplýsingar um mannfall munu framvegis koma frá skrifstofu forstætisráðherra Íraks og telja fulltrúar SÞ það bjóða þeirri hættu heim að upplýsingagjöf um mannfall verði of lituð af hagsmunum ráðamanna í landinu og því mjög pólitísk.

Ashraf Qazi, sem fer fyrir hjálparstarfi SÞ í Írak, sendi skeyti til höfuðstöðvanna í New York þar sem sagði að fulltrúar frá skrifstofu Nuris al-Malikis, forsætisráðherra, hefðu bannað heilbrigðisráðuneytinu að veita þessar upplýsingar.

Stephane Dujarric, talsmaður SÞ, vildi ekki tjá sig um innihald skeytisins, sem lekið var í bandaríska blaðið Washington Post. Hann lagði þó áherslu á að samtökin hefðu haft gott samstarf við heilbrigðisráðuneytið. Dujarric sagðist vona að svo yrði áfram og að málið yrði rætt við ráðamenn í Írak.

Erfiðlega hefur gengið fyrir fulltrúa SÞ að verða sér úti um áreiðanlegar upplýsingar um mannfall í Írak. Helst hefðu tölur fengist frá heilbriðgisráðuneytinu og frá líkhúsinu í Bagdad. Fyrr í þessum mánuði var starfsmönnum líkhússins bannað að veita slíkar upplýsingar.

Stjórnendur Bandaríkjahers segjast drag tölur frá heilbrigðisráðuneytinu í efa þar sem því sé stjórnað af stuðningsmönnum herskáa sjíaklerksins Moqtada al-Sadr.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum SÞ hafa 6.599 almennir íraskir borgarar fallið í átökum í júlí og ágúst, 700 fleiri en tvo mánuði þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×