Erlent

Bretar ætla að halda ótrauðir áfram í Írak

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fullvissaði Íraka í morgun um að Bretar ætli að halda ótrauðir áfram starfi sínu í Írak.

Þeir Tony Blair og Barham Salih, aðstoðarforsætisráðherra Íraka, funduð í morgun um öryggismál í Írak. Skrifstofa forsætisráðherrans í Downings stræti hefur staðfastlega neitað fréttum um að Blair ætlaði að nota fundinn til að krefjast tryggingar fyrir því að Írakar tæku sjálfir við öryggismálum í suðurhluta landsins innan árs.

Krafan um að kalla herlið Breta frá Írak hefur orðið háværari undanfarið en um 7000 breskir hermenn eru staðsettir í suðurhluta Írak nærri borginni Basra. Des Browne, varnarmálaráðherra Breta, hefur lýst því yfir að hann vilji að íraskar hersveitir verði tilbúnar til að taka við af herliði Breta innan árs. Sir Richard Dannatt, yfirmaður breska hersins, lýsti því fyrir skömmu yfir að vera bresks herliðs í Suður-Írak drægi úr öryggi á svæðinu og að Bretar ættu að kalla herlið sitt heim fljótlega.

Aðstoðarforsætisráðherra Íraka sagði í morgun mikilvægt að Bretar og Bandaríkjamenn sýndu þrautseigju og hlypu ekki burt. Alþjóðasamfélagið gæti ekki skilið Íraka eina eftir til að ráða fram úr því erfiða ástandi sem nú ríki í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×