Erlent

Vandræði lággjaldaflugfélags fyrsta flugdag

Flugvél Oasis lággjaldaflugfélagsins á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í dag.
Flugvél Oasis lággjaldaflugfélagsins á alþjóðaflugvellinum í Hong Kong í dag. MYND/AP

Þeir voru vandræðalegir stjórnendur Oasis lággjaldaflugfélagsins í Hong Kong þegar aflýsa þurfti fyrstu ferð flugfélagsins í dag. Ekki hafði fengist leyfi til að fljúga um rússneska lofthelgi. Vélin átti að fara frá Hong Kong og lenda á Gatwick flugvelli Lundúnum í dag. Stjórnendur Oasis segja þessi mistök ekki á þeirra ábyrgð.

Flugvélin átti að fara af stað kl. 5 í morgun að íslenskum tíma. Ferð hennar var frestað í 5 klukkustundir en síðan aflýst. Stjórnarformaður Oasis, Raymond Lee, átti að vera meðal farþega. Lee segir að leyfi hafi fengist fyrir ferðum félagsins um rússneska lofthelgi en síðan hafi komið í ljós í morgun að það lægi ekki fyrir. Lee segir skýringa nú leitað frá stjórnendum flugmála í Rússlandi.

Rússnesk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið í dag.

Farþegum sem áttu bókað flug með vélum Oasis verður tryggð gisting í Hong Kong þar til mál leysast. Þeim sem þurfa þegar að komast til Lundúna verður útvegað far með vélum annarra félaga. Farþegar fá einnig jafnvirði rúmlega 4.000 íslenskra króna endurgreitt og ókeypis flugmiða í sárabætur.

Ekki er vitað hvort flugvél félagsins fer á loft á morgun.

Oasis flugfélagið vakti athygli á sér þar sem farþegum þess er lofað lágu miðaverði án þess að þjónusta um borð verði skorin við nögl. Verð á miða í beinu flugi til Lundúna getur farið niður í jafnvirði tæpar 9.000 íslenskra krónur fyrir skatta, þriðjugur þess verðs sem nú býðst í Hong Kong. Lægsta verð á miða með fyrsta flugrými frá Hong Kong til Lundúna hjá öðrum flugfélögum er jafnvirði tæpra 60 þúsunda íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×