Erlent

Forsætisráðherra Íraks ekki hafður með í ráðum

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, á blaðamannafundi á Græna svæðinu svokallaða í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag.
Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, á blaðamannafundi á Græna svæðinu svokallaða í Bagdad, höfuðborg Íraks, í dag. MYND/AP

Bandarískar og íraskar hersveitir gerðu í morgun áhlaup á Sadr-borg, fátækrahverfi í norð-austurhluta Bagdad, höfuðborgar Íraks. Hverfið er höfuðvígi herskáa sjía-klerksins Moqtada al-Sadr. Minnst 4 féllu í átökum og 18 særðust. Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, segist ekkert hafa vitað af árásinni eða gefið leyfi fyrir henni. Hann hafi ekki verið hafður með í ráðum.

al-Maliki gagnrýnir George Casey, hershöfðingi í Bandaríkjaher, og Zalmay Khalilzad, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, fyrir það sem fram kom á blaðamannafundi þeirra í Bagdad í gær. Þá sögðu þeir þörf á að setja um tímatöflu hvað varðar baráttuna gegn andspyrnu- og hryðjuverkamönnum í landinu.

Forsætisráðherrann segir ríkisstjórn sína lúta vilja fólksins í Írak og enginn hafi rétt á því að setja tímamörk að þeim forspurðum. Þetta kom fram á blaðamannafundi al-Malikis í dag. Hann sagði tal Bandaríkjamanna um tímamörk eigi rætur sínar í baráttuni fyrir þingkosningarnar í Bandaríkjunum í næsta mánuði. Hann sagðist fullviss um að þetta tal endurspeglaði ekki opinbera stefnu bandaríkjastjórnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×