Bandaríkjamenn fullvissuðu Indverja um að þeir myndu sjá þeim fyrir kjarnorkueldsneyti og búnaði til þess að vinna það á næstunni. Þetta kom fram í samtölum Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Pranab Mukherjee, nýskipaðs utanríkisráðherra Indlands.
Þessi áætlun kom fyrst fram árið 2005 en hefur tafist vegna mótstöðu í bandaríska þinginu og þá sérstaklega vegna þess að Indverjar eru ekki aðilar að kjarnorkusáttmála Sameinuðu þjóðanna. Andstæðingar þessarar áætlunar á Indlandi segja að með þessu séu Bandaríkjamenn að koma í veg fyrir að Indland geti þróað kjarnorkustarfsemi sína eins og þeir vilja.